Innlent

Vanefndir af hálfu ríkisstjórnar ef vaxtabótafrumvarp fer óbreytt í gegn

MYND/GVA

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir að ef tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á vaxtabótum, sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi, verði samþykktar óbreyttar sé um vanefndir að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar.

„Ríkisstjórnin lofaði því í sumar við endurkoðun kjarasamninga, að tekið yrði á vanda þess fólks sem missir nú stóran hluta vaxtabóta sinna - eða jafnvel allar bæturnar - fyrir þær sakir einar að fasteignamat hækkar milli ára. Fólk hefur ekkert meira á milli handanna þó fasteignamatið hækki. Þvert á móti, það hefur minna vegna þess að talsverður hluti fær nú ekki vaxtabæturnar. Það verður ekki horft framhjá því að ríkisstjórnin gaf loforð í sumar um að tekið yrði á þessum vanda strax og þing kæmi saman nú í haust og að samráð yrði haft við verkalýðshreyfinguna um nauðsynlegar breytingar," segir Grétar á vef ASÍ.

Grétar segir að ASÍ hafi ítrekað leitað eftir samráði við ríkisstjórnina í haust og vetrarbyrjun en við hafi ekki stjórnvöld ekki orðið og óskum ASÍ um aðgang að nauðsynlegum gögnum ekki einu sinni svarað.

„Niðurstaðan eins og hún stefnir í að verða er með öllu óviðunandi og kemur ekki til móts við vanda þeirra þúsunda sem nú fá skertar eða engar vaxtabætur. Við bentum á þetta strax í sumar og höfum gert það ítrekað síðan. Það er ekkert hægt að lýsa þessari niðurstöðu öðru vísi en svo að hér sé um hreinar vanefndir að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar", segir forseti ASÍ enn fremur



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×